Ábyrgð í verki


Mannvit er alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki í verk- og tæknifræði á sviði orku, iðnaðar og mannvirkja. Það starfrækir samþætt stjórnkerfi sem tekur mið af stöðlunum ISO 9001 um gæðastjórnun, ISO 14001 fyrir umhverfisstjórnun og OHSAS 18001 um stýringu öryggis og vinnuverndar. Mannvit byggir samkeppnisforskot sitt á öflugum mannauði og samfélagsábyrgð sem er samofin öllum rekstri fyrirtækisins.

Stjórnarhættir Mannvits eru í samræmi við lög um hlutafélög nr. 2/1995, leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð, Nasdaq Iceland hf. og Samtök atvinnulífsins hafa gefið út, samþykktir og starfsreglur stjórnar. Engar undirnefndar stjórnar eru starfræktar.

 

Fimm manna aðalstjórn félagsins var kosin á aðalfundi í maí 2019. Hún er skipuð þremur körlum og tveimur konum og uppfyllir þar með ákvæði 63. gr. hlutafélagalaga um kynjahlutföll í stjórn. Samsvarandi ákvæði er að finna í samþykktum félagsins. Formaður stjórnar er karlmaður. Tveir varamenn eru í stjórn félagsins, karl og kona. Framkvæmdastjórn fyrirtækisins er skipuð fimm aðilum, þremur körlum og tveimur konum. Forstjórinn er karlmaður. Mannvit hlaut jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85 og heimild Jafnréttisstofu til að nota jafnlaunamerki í árslok 2018.

 

Mannvit hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85

 

Stjórn Mannvits leggur ríka áherslu á að viðhalda góðum stjórnarháttum enda hafa góðir stjórnarhættir áhrif á rekstrarafkomu fyrirtækisins og stuðla að bættum vinnubrögðum og betri samskiptum við hagsmunaaðila. Stjórn hefur sett sér starfsreglur þar sem helstu verkefni og valdsvið stjórnar og forstjóra eru skilgreind. Þar er m.a. að finna hvernig stjórn skiptir með sér verkum, reglur um fundarsköp, fundargerðir og hæfi stjórnarmanna til þátttöku í afgreiðslu mála, reglur um þagnarskyldu, upplýsingagjöf gagnvart stjórn og ákvörðunarvald stjórnar. Starfsreglur stjórnar eru endurskoðaðar árlega. Starfsáætlun stjórnar, sem gerð er fyrir hvert rekstrarár, skapar traust á milli stjórnar og hluthafa og spornar gegn ómarkvissum aðgerðum.

 

„Stjórn hefur sett fram heildstæða áhættustefnu fyrir fyrirtækið og skilgreint helstu áhættuþætti í rekstri"

 

Innra eftirlit

Mannvit hefur skilgreint og kortlagt ferli fyrir allar meiriháttar ákvarðanir sem hugsanlegt er að fyrirtækið vilji grípa til við ákveðnar aðstæður. Ákveðin skilyrði þurfa að vera fyrir hendi þegar allar meiriháttar ákvarðanir eru teknar. Skilgreint er hver sé best fallinn til að taka ákvarðanir og að þær séu teknar á grundvelli bestu fáanlegu upplýsinga á hverjum tíma. Það er grundvallaratriði í góðum stjórnarháttum Mannvits að allir þeir aðilar sem viðkomandi ákvörðun snertir séu upplýstir tímanlega um efni ákvörðunar og komi með viðeigandi hætti að ákvarðanatöku ef við á.

 

Stjórn hefur sett fram heildstæða áhættustefnu fyrir fyrirtækið og skilgreint helstu áhættuþætti í rekstri. Helstu áhættur fyrirtækisins eru mótaðilaáhætta, lausafjáráhætta, rekstraráhætta og gjaldmiðlaáhætta. Mannvit skilgreinir sérstaka áhættumælikvarða og hefur framkvæmdastjórn reglulegt eftirlit með þeim til að greina breytingar á áhættu. Forstjóri upplýsir stjórn reglubundið um áhættur félagsins.

 

Mannvit hefur ekki látið framkvæma úttektir á þeim upplýsingum og gögnum sem fram koma í samfélagsskýrslu þessari og hefur ekki skilgreint sérstakt innra eftirlit á þessum atriðum.

 


„Við ætlum að endurskoða og uppfæra siðareglur Mannvits"

 

Siðareglur Mannvits gilda um allt starfsfólk og stjórnendur og voru samþykktar af stjórn í október 2018.  

 

Mannvit hefur ekki skilgreint sérstakar siðareglur birgja. Til að tryggja eins og hægt er að fyrirtækið eigi ekki í viðskiptum við aðila sem ekki virða stefnu fyrirtækisins varðandi mannréttind og siðferði eru ákvæði í útboðslýsingum og verksamningum félagsins þar sem verktakar lýsa því yfir og ábyrgjast að þeir virði réttindi starfsfólks síns og undirverktaka, eins og við á hverju sinni.

 

Mannvit fylgir lögum um persónuvernd eins og öðrum lögum sem gilda um starfsemi fyrirtækisins. Persónuverndarstefna Mannvits var samþykkt í júlí 2018 og er hún endurskoðuð reglulega. Stefna fyrirtækisins er að hún sé skýr og berorð um hvernig fyrirtækið safnar persónuupplýsingum og í hvaða tilgangi þær eru notaðar, í samræmi við fyrirmæli persónuverndarlaga, GDPR (General Data Protection Regulation).

ESG frammistöðuvísar

Vísir Mælikvarði 2019 2018
G1. Hlutfall kvenna í stjórn í prósentum (samanborið við karla) 40% 40%
G1. Hlutfall kvenna í formennsku nefnda í prósentum (samanborið við karla) á.e.v. á.e.v.
G2. Bannar fyrirtækið forstjóra að sinna stjórnarformennsku? Já/Nei Nei Nei
G2. Hlutfall óháðra stjórnarmanna í prósentum 0% 0%
G3. Fá framkvæmdastjórar formlegan kaupauka fyrir að ná árangri á sviði sjálfbærni? Já/Nei Nei Nei
G4. Hlutfall starfsfólks fyrirtækisins sem fellur undir almenna kjarasamninga 90,9% á.e.v.
G5. Ber seljendum þínum eða birgjum að fylgja siðareglum? Já/Nei Nei Nei
G6. Fylgir fyrirtækið þitt stefnu um siðferði og/eða aðgerðir gegn spillingu? Já/Nei
G6. Ef já, hve hátt hlutfall vinnuaflsins þíns hefur formlega vottað að það fylgi stefnunni, í prósentum? 0% 0%
G7. Fylgir fyrirtækið þitt stefnu um persónuvernd? Já/Nei
G7. Hefur fyrirtækið þitt hafist handa við að fylgja GDPR reglum? Já/Nei
G8. Gefur fyrirtækið þitt út sjálfbærniskýrslu? Já/Nei
G8. Er gögn um sjálfbærni að finna í skýrslugjöf til yfirvalda? Já/Nei Nei Nei
G9. Veitir fyrirtækið þitt upplýsingar um sjálfbærni til viðurkenndra aðila með skipulögðum hætti? Já/Nei Nei Nei
G9. Leggur fyrirtækið þitt áherslu á tiltekin heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (UN SDGs)? Já/Nei
G9. Setur fyrirtækið þitt markmið og gefur skýrslu um framvindu heimsmarkmiða SÞ? Já/Nei
G10. Er upplýsingagjöf þín um sjálfbærni tekin út eða sannreynd af þriðja aðila? Já/Nei Nei Nei

 

* á.e.v: Á ekki við