2019

Sjálfbærniskýrsla
Kársnesskóli
Hönnun fyrir Svansvottun

Kópavogur mun á næstu árum reisa nýjan Kársnesskóla en nýja skólabyggingin mun hýsa grunn- og leikskóla. Nýr Kársnesskóli verður 5.750 m² á þremur hæðum þar sem burðarvirki skólans verður úr krosslímdum timbureiningum (KLT). Nýr Kársnesskóli mun að framkvæmd lokinni hljóta norræna Svansmerkið fyrir umhverfisvæna hönnun og efnisval og verður þar með fyrsti skólinn á Íslandi til að hljóta Svansmerkið. Mannvit sá um alla verkfræðihönnun á verkinu, verkefnastjórnun, burðarþol, lagnir- og loftræsingu, rafmagn, hljóðvist, jarðtækni- og brunahönnun ásamt því að veita ráðgjöf vegna Svansvottunar til Kópavogs.

Mynd: Batteríið

 

      

Hafnarfjörður
Rammaskipulag

Nýtt rammaskipulag fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði er niðurstaða úr sameiningu tveggja tillagna í hugmyndasamkeppni fyrir Hafnarfjarðarbæ og Hafnarfjarðarhöfn. Hryggjarstykkið á Flensborgarhöfn er vistgatan, þar sem fótgangandi og hjólandi hafa forgang á meðan hæg bílaumferð er víkjandi. Gatan tengir mismunandi svæði og starfsemi saman, s.s. Siglingaklúbbinn Þyt, dráttarbraut, Íshúsið, Hafnartorgið og biðstöð Borgarlínu. Á svæðinu verða 600-900 íbúðir fyrir u.þ.b. 1.500 - 2.500 íbúa. Gert er ráð fyrir allt að 80.000 m² í atvinnuhúsnæði á svæðinu í heild. Mannvit var ráðgjafi arkitektastofanna Vantspijker & partners, Kjellgren Kaminsky Architecture og Mareld landskapsarkitekter, sem unnu sameiginlega að rammaskipulaginu. Mannvit veitti ráðgjöf tengt samgöngum á svæðinu.

 

      

Guðlaug
Umhverfis- verðlaun

Guðlaug, heit laug í grjótvörn fyrir opnu hafi við Langasand á Akranesi, hlaut umhverfisverðlaun Ferðamálstofu árið 2019. Mannvirkið er hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi og fellur vel að þörfum útivistarsvæðisins við Langasand. Verðlaunin eru veitt fyrir verkefni sem samræmast umhverfisstefnu Ferðamálstofu og áherslum Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um sjálfbæra þróun, gæði hönnunar og skipulag.

Guðlaug hefur notið mikilla vinsælda en um 30 þúsund gestir heimsóttu laugina árið 2019. Hönnunin var unnin af Basalt arkitektum og Mannvit. Mannvit sá um gerð útboðsgagna og hafði umsjón með útboði, auk hönnunar burðarþols, raflagna, lagna og stjórnkerfis og ráðgjafar á framkvæmdatíma. 

Ljósmynd: Akraneskaupstaður

 

      

Orkureiturinn
BREEAM vottun

Mannvit vinnur að BREEAM Communities vottun á 2,7 ha svæði sem markast af Suðurlandsbraut, Grensásvegi, Ármúla og nýrri götu, Orkumúla, sem tengir Suðurlandsbraut og Ármúla. Skipulagsgerðin felst í enduruppbyggingu á því svæði þar sem Orkuhúsið stendur núna. Fyrirhugað er að þar verði blandað hverfi með íbúðum, skrifstofum, verslunum og þjónustu. Þannig getur skapast spennandi borgarumhverfi með iðandi mannlífi frá morgni til kvölds. Mannvit er með réttindi til vottunar skv. BREEAM  matskerfinu en það er nytsamlegt verkfæri samhliða skipulagsgerð sem nokkurskonar leiðarvísir að vistvænu markmiði. Mannvit vinnur einnig að BREEAM Communities vottun þriggja annarra svæða á höfuðborgarsvæðinu. 

Mynd: ALARK

 

      

Höfuðborgarsvæðið
Nýtt samgöngulíkan

Mannvit, í samstarfi við COWI, hefur þróað nýtt umferðarlíkan fyrir höfuðborgarsvæðið. Helsta nýjungin er að líkanið gerir ráð fyrir fjölbreyttum ferðamátum þar sem er greint og spáð fyrir umferð bíla, farþega almenningssamgangna, þ.m.t. Borgarlínu og umferð hjólandi. Líkanið verður m.a. notað til að greina áhrif skipulagsbreytinga og framkvæmda á ferðavenjur. Niðurstöðurnar verða einnig notaðar til loftslagsútreikninga.

 

      

Álfsnes
Metan eldsneyti

Mannvit hefur frá upphafi verið ráðgjafi SORPU bs. við framleiðslu og nýtingu metans sem unnið er í Álfsnesi. Árið 2019 kom Mannvit að ýmsum verkefnum til að styrkja og bæta gasvinnslukerfi SORPU. Þeirra á meðal voru uppsetning nýs áfyllingarkerfis fyrir flutningsfleti í Álfsnesi og undirbúningur að tengingu GAJA, nýrrar gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU, við gashreinsistöðina. Auk þessa sá Mannvit um greiningu á ýmsum kostum til nýtingar metans, meðal annars flutning og sölu metans til iðnfyrirtækja og áætlun um metanlögn fyrir Strætó bs. Loks má nefna að Mannvit annaðist áhættumat, viðhaldsúttekt og prófun á metanlögn Veitna sem liggur frá Álfsnesi að Bíldshöfða.

 

      

Kópavogsbær
Heimsmarkmið SÞ samþætt aðalskipulagi

Kópavogsbær hefur innleitt heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í stefnu sína. Í aðdraganda endurskoðunar á aðalskipulagi Kópavogs var því ákveðið að horfa til þeirra um sjálfbæra þróun þegar stefnumið skipulagsins voru rýnd og yfirfarin. Mannvit stýrði vinnustofum með helstu hagaðilum Kópavogs þar sem lagt var mat á helstu áhrif aðalskipulagsins á heimsmarkmiðin. Niðurstöður þeirra voru síðan nýttar við þessa endurskoðun.

 

       

Hellisheiði
Kolefnisföngun

Mannvit vinnur að uppbyggingu á Hellisheiði þar sem ný tækni frá Climeworks er notuð til að fanga koltvísýring úr andrúmslofti. Climeworks hefur þróað þessa tækni til að endurheimta koltvísýring, CDR (Carbon Dioxide Recovery), frá árinu 2009. Koltvísýringurinn er síðan seldur eða dælt niður í bergið á Hellisheiði þar sem hann steingerist. Mannvit kom einnig að þróunarvinnu tækninnar við niðurdælingu koltvísýrings í gegnum verkefni sem ber heitið CarbFix. Öll vinna og ráðgjöf Mannvits vegna aðstöðunnar á Hellisheiði er unnin fyrir Climeworks og Orku náttúrunnar. 

Ljósmynd: Climeworks tæknilausn

 

      

Suðvesturland
Vetnisstöðvar

Mannvit sá um hönnun á aðstöðu fyrir vetnisstöðvar til að framleiða og afgreiða vetni á ökutæki. Um er að ræða vetnisframleiðslustöð Orku náttúrunnar á Hellisheiði og afgreiðslustöð Orkunnar við Miklubraut. Áður höfðu verið settar upp afgreiðslustöðvar fyrir vetni að Fitjum í Reykjanesbæ og við Vesturlandsveg í Reykjavík en Mannvit sá einnig um hönnun á aðstöðu fyrir þessar stöðvar. Að ýmsu er að hyggja við uppsetningu vetnisstöðva, meðal annars brunavörnum, áhættumati og öryggi, tengingu rafmagns, aðkomu og aðgengi. Mannvit annaðist einnig byggingarstjórnun.